IMG_2090
Selsvöllur á sér sögu, rétt eins og allir vellir landsins, en hvernig sagan hófst og þróun vallarins þykir okkur merkileg.

Hér fyrir neðan má finna ágrip af sögu og tilurð Selsvallar
Daníel Halldórsson Apeland, vallarstjóri Selsvallar, tók saman

Saga Golfklúbbsins Flúðir

MF 135 var lengi nýttur við vinnu á golfvellinum, aðallega í boltatínslu. Gekk fyrir steikarolíu á tímabili með tilheyrandi ”kleinulykt”

Golfklúbburinn Flúðir var stofnaður 29. júlí 1985 en völlur klúbbsins, Selsvöllur, er í landi jarðarinnar Efra-Sels í Hrunamannahreppi, 3 km. frá Flúðum. 

Jörðin var þá í eigu hjónanna Halldórs Elís Guðnasonar og Ástríðar G. Daníelsdóttur. Karl Gunnlaugsson var kjörinn fyrsti formaður klúbbsins og gegndi því hlutverki í 25 ár.

Með Karli í fyrstu stjórn GF sátu þeir Reynir Guðmundsson, ritari og Halldór Elís Guðnason, gjaldkeri.

Fyrstu árin: Sjálfboðavinna og tilurð vallarins

Sjálfboðaliðar vinna við klæðningu golfskálans 2022

Til að byrja með var aðeins um að ræða 6 holu golfvöll og hafið að leika á vellinum strax á stofnárinu, 1985.

Vinna við gerð vallarins á þessum árum var unnin í sjálfboðavinnu þar sem klúbbmeðlimir lögðu mikla vinnu af mörkum eða styrktu klúbbinn með einum eða öðrum hætti.

Aðstaða fyrir þá sem unnu við völlinn var afar takmörkuð og engin til skrifstofuhalds þar til gamalli rútu var komið fyrir við fyrsta teig vallarins og hún notuð sem skrifstofa.

Stofnun Selsvallar og þróun félagsins

Fyrsti hluti golfskálans sem var byggður þar sem nú er 4. teigur

1988 var byggður 50 fermetra golfskáli sem síðan var stækkaður í 90 fermetra tveimur árum síðar.

Brautum fjölgaði síðan og árið 1995, á 10 ára afmæli klúbbsins, var 9 holu golfvöllur tilbúinn á svæðinu. 

Á afmælisárinu settu forráðamenn klúbbsins sér það markmið að 18 holu golfvöllur yrði tilbúinn aldamótaárið 2000.

Halldór og Ásta; hjónin sem hófu sögu klúbbsins

Halldór Elís Guðnason
Ásta í afgreiðslunni í gamla golfskálanum sem stóð þar sem 4. teigur er nú

Halldór Elís Guðnason var bóndi á Efra- Seli og var þar með búrekstur ásamt Ástríði G. Daníelsdóttur eiginkonu sinni til ársins 1997.

Á fyrstu árum klúbbsins stunduðu þau hjón hefðbundinn búskap sem vék smátt og smátt eftir því sem golfvellinum óx fiskur um hrygg. 1988 var byggður lítill golfskáli sem síðan var stækkaður og hóf Ástríður veitingarekstur í golfskálanum ásamt fjölskyldu sinni.

Halldór og fjölskylda hans ráku völlinn um árabil og stöðu fyrir nær öllum framkvæmdum á svæðinu, bæði á vellinum og við golfskálann.

Í því sambandi kom sér vel að Halldór var húsgagnasmiður að mennt og Ásta nýtti áhugamál sitt og menntun í matseld við veitingareksturinn.

Ásta og Halldór sáu oft um vökvun í þurrkatíð, eftir að þau létu reksturinn frá sér
Dansinn var alltaf mikið áhugamál þeirra hjóna, hér eru þau í tónlistarmyndbandi hjá Jónasi Sig.

Skógrækt og náttúran á Selsvelli

Ofan við 11. flöt
Púttað á 9. flöt (eldri)

Rekstur vallarins hefur orðið umfangsmeiri með árunum en þess jafnan verið gætt við uppbygginguna að auðvelt væri að hirða hann. Reynsla Halldórs af hefðbundnum búskap kom líka að góðum notun við ræktun vallarins þar sem hann þekkti vel til slíkra mála.

Þegar hætt var að stunda búrekstur á Efra-Seli 1997 var farið að ræða möguleika þess að bæta við 9 holum og gera völlinn að 18 holu golfvelli. Framkvæmdir við stækkunina hófust tveimur árum síðar og var Selsvöllur orðinn 18 holu golfvöllur árið 2000.

Félagar í klúbbnum voru aðeins tólf þegar klúbburinn var stofnaður en þeim hefur fjölgað jafnt og þétt og aðsókn að vellinum aukist til muna. Fljótlega varð því ljóst að nauðsynlegt væri að ráðast í að stækka golfskálann eða byggja nýjan. Upp kom sú hugmynd að taka mætti nýlegt fjós sem stóð autt og breyta því í golfskála.

Húsið er 280 fermetrar að flatarmáli, auk kjallara, og 16. júní 2001 var búið að breyta því í glæsilegan golfskála. Sama dag var 18 holu golfvöllur formlega tekinn í notkun. Völlurinn nær yfir um 45 hektara lands og hefur mikil áhersla verið lögð á skógrækt, bæði meðfram brautum og á opnum svæðum en frá upphafi hefur skógrækt verið mikilvægur þáttur í hönnun og uppbyggingu vallarins og að hann yrði skógarvöllur.

Árangur skógræktarinnar hefur ekki látið á sér standa og í dag prýðir mikill trjágróður flestar brautir vallarins. Litla-Laxá rennur meðfram nokkrum brautum, setur sterkan svip á umhverfið og skapar skemmtilega stemmningu.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að mikill fjöldi golfbolta ratar í ána ár hvert ekki síst á þeim stað þar sem kylfingar þurfa að slá yfir ánna af einum teignum.

Veðurfar á svæðinu er afar hentugt til golfiðkunar, þurrviðrasamt og sólríkt. Í upphafi árs 2025 voru skráðir félagar í GF 320 talsins.

Framtíðin

Barna- og unglingamót hafa mörg verið haldin á Selsvelli

Þróun vallarsins heldur áfram sem og frekari uppbyggingu þjónustu honum tengd.

Árið 2025 er áætlað að taka í notkun breytingar á 15., 16. og 17. braut sem færa munu völlinn aftur í það form sem hann var áður fyrr á þessu svæði.

Einnig eru uppi áform um mikla uppbyggingu í bættri aðstöðu fyrir húsnæði klúbbsins sem og gistiþjónustu.

Fleiri myndir

Rulla till toppen