IMG_2090

Lög GF

Neðangreind lög GF voru samþykkt á aðalfundi klúbbsins þann 7. febrúar 2025

1. grein

Nafn klúbbsins er Golfklúbburinn Flúðir skammstafað GF, heimili hans og varnarþing er að Flúðum Hrunamannahreppi. Klúbburinn er aðili að Héraðssambandinu Skarphéðni skammstafað HSK og Golfsambandi Íslands skammstafað GSÍ. Klúbburinn starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla.

2. grein

Markmið GF er að efla áhuga manna á golfíþróttinni og að vinna að framgangi hennar. Félagið rekur golfvöll og skapar félögum aðstöðu til golfiðkunar.

3. grein

Félagar geta allir orðið sem hafa áhuga á að styðja tilgang félagsins og óska aðildar með skriflegri umsókn. Inntaka nýrra félaga er háð samþykki stjórnar. Stjórn getur sett frekari skilyrði fyrir inntöku í klúbbinn sem birt skulu á heimasíðu hans. Úrsögn er bundin við áramót og berist hún skriflega fyrir lok desembermánaðar. Ef klúbbstjórn samþykkir það samhljóða er heimilt að víkja mönnum úr félaginu.

4. grein

Samþykktur umsækjandi telst félagsmaður og fer á félagaskrá er hann hefur greitt ákvörðuð gjöld. Um félagsaðild og þátttöku félagsmanna á golfmótum skal farið að lögum og reglum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og GSÍ.

5. grein

Sérhverjum félagsmanni er skylt að greiða félagsgjald til klúbbsins. Árgjöld og inntökugjöld skulu ákveðin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn og skal árgjaldið vera kynnt sem hluti af fjárhagsáætlun sem lögð er fram á aðalfundi GF hverju sinni. Árgjald skal greitt eða frá greiðslu þess gengið fyrir 15. apríl ár hvert. Hafi árgjald ekki verið greitt fyrir 1. júní er félagsstjórn heimilt að fella viðkomandi af félagaskrá. Stjórn félagsins er heimilt að bjóða félagsmönnum upp á greiðsludreifingu árgjalda með kreditkortum eða öðrum viðurkenndum greiðsluaðferðum. Skilyrði er að félagið beri ekki kostnað af slíkum samningum.

6. grein

Við golfleik skal farið eftir St. Andrews golfreglum eins og þær eru á hverjum tíma og þeim reglum sem GSÍ setur. Svo fremi sem þessar golfreglur banna ekki, getur stjórnin sett sérreglur (staðarreglur) um golfleikinn og um umgengni og annað sem henni þykir þurfa hverju sinni. Félagsmenn eru skyldugir að fara eftir þeim golfreglum sem gilda á hverjum tíma enda sér stjórnin um að þær séu nægilega kynntar og aðgengilegar félagsmönnum. Stjórnin skal setja siðareglur í félaginu og birta félagsmönnum. Brjóti félagsmaður alvarlega eða ítrekað gegn reglum félagsins getur stjórnin beitt viðkomandi viðurlögum sem geta verið áminning, tímabundinn missir réttinda til þess að mega skrá rástíma, tímabundinn missir réttinda til þess að leika á golfvelli félagsins eða brottvísun úr félaginu. Stjórnin skipar aganefnd til þess að fara með agavald sitt. Brottvísun úr félaginu skal þó ætíð háð samþykki stjórnarinnar, sbr. 3. grein.

7. grein

Reikningsár klúbbsins er 1. október til 30. september. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta reikningsár skal endurskoðaður af félagskjörnum skoðunarmönnum og skal liggja frammi eða birtur á heimasíðu klúbbsins, til skoðunar a.m.k. viku fyrir aðalfund.

8. grein

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum félagsins. Skal hann haldinn fyrir 30. nóvember ár hvert. Skal boða hann með auglýsingu í dagblaði eða með tölvupósti til félagsmanna eða öðrum rafrænum hætti með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi nema annað sé ákveðið í lögum þessum. Atkvæðisrétt hafa allir lögráða félagsmenn.

9. grein

Í upphafi aðalfundar skal kjósa sérstakan fundarstjóra og ritara eftir tilnefningu hans.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
9.1. Skýrsla stjórnar.
9.2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
9.3. Umræða um skýrslu stjórnar og ársreikning, sem síðan skal borinn upp til samþykktar.
9.4. Lagabreytingar.
9.5. Kosningar samkvæmt 10. grein.
9.6. Ákvörðun félagsgjalda, fjárhagsáætlun næsta árs kynnt.
9.7. Önnur mál.

10. grein

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Fjórir eru kosnir til tveggja ára í senn, tveir í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Kjörgengir til stjórnarstarfa eru lögráða félagsmenn. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa tvo varamenn í stjórn til eins árs í senn. Í forföllum aðalmanna skulu varamenn kallaðir til í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir við kjör eða kosnir. Varamenn mega sitja alla stjórnarfundi í félaginu og hafa þar málsfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þeir aðeins í forföllum aðalmanna. Stjórnarmenn og varamenn má endurkjósa.

Á aðalfundi skal jafnframt kjósa tvo skoðunarmenn ársreikninga. Skulu þeir yfirfara bókhald og árita ársreikninga félagsins í samræmi við ákvæði 7. greinar. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa þrjá félaga í kjörnefnd sem hefur það hlutverk að tryggja að ávallt sé á næsta aðalfundi framboð til embættis formanns og fulltrúa í stjórn og varastjórn GF, sem og til embættis skoðunarmanna ársreiknings félagsins.Kjörnefnd skal starfa á grundvelli skipunarbréfs sem samþykkt er á aðalfundi. Nefndin skal auglýsa eftir framboðum og birta tillögur sínar a.m.k. þremur dögum fyrir aðalfund. Ef framboð til stjórnarsetu eru fleiri en þau stjórnarsæti sem kjósa skal um skal kosið milli frambjóðenda á aðalfundi.

11. grein

Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsins og ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja og ber ábyrgð gerða sinna fyrir aðalfundi. Samþykki félagsfundar þarf til ákvarðana sem hafa veruleg fjárútlát eða fjárskuldbindingar í för með sér. Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess, stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum. Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér störfum þannig að einn skal vera varaformaður og staðgengill formanns, einn ritari, einn gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Þá skipar stjórnin í nefndir sem starfa á vegum félagsins og tilnefnir fulltrúa félagsins í nefndir og ráð sem það á aðild að.

Á vegum stjórnar skulu að jafnaði starfa þessar nefndir:
• Móta- og íþróttanefnd
• Vallar- og húsnæðisnefnd
• Forgjafarnefnd
• Aganefnd
• Fjáröflunarnefnd

Nefndirnar starfa samkvæmt reglum GSÍ. Stjórn getur skipað fleiri nefndir til að sinna sérstökum, tímabundnum verkefnum.

12. grein

Stjórnin ræður félaginu framkvæmdastjóra eða forsvarsmenn einstakra rekstrarþátta og ákveður ráðningarkjör þeirra. Eftir nánari ákvörðun stjórnar stýra þeir daglegum rekstri félagsins í samræmi við stefnumörkun hennar. Stjórnin skal leitast við að tryggja félagsmönnum nægilegt framboð golfkennslu með ráðningu golfkennara.

13. grein

Stjórnin getur tilnefnt heiðursfélaga ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald en njóta allra félagsréttinda. Á sérstökum tímamótum getur stjórnin veitt félagsmönnum og/eða velunnurum félagsins heiðursmerki og/eða afreksmerki þess.

14. grein

Félagsfundi skal halda þegar stjórn telur ástæðu til eða þegar a.m.k. 1/10 félagsmanna æskir þess skriflega. Ber stjórn þá að halda hann innan þriggja vikna frá móttöku slíkrar beiðni. Skýrt skal koma fram við boðun félagsfundar hver dagskrá slíks fundar eigi að vera og hvaða tillögur verða teknar þar fyrir og ályktað um. Vanræki stjórnin að halda fund þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar getur sérhver félagsmaður boðað til hans. Að öðru leyti skulu sömu reglur gilda um félagsfund og aðalfund.

15. grein

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi þess og skal tillögum til lagabreytinga skilað til stjórnar eigi síðar en 10 dögum fyrir aðalfund. Skal stjórnin tryggja að tillögur um lagabreytingar liggi frammi og séu birtar á heimasíðu klúbbsins, til skoðunar a.m.k. viku fyrir aðalfund. Nái tillaga til lagabreytingar samþykki 2/3 (tveggja þriðju hluta) greiddra atkvæða fær hún gildi.

16. grein

Komi fram tillaga um að félaginu skuli slitið skal hún tekin fyrir á sérstökum fundi. Skal stjórn klúbbsins boða til hans með sama hætti og gildir um aðalfund. Fundurinn er ályktunarhæfur og fær tillagan gildi ef minnst helmingur félagsmanna sækir fundinn og 2/3 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði. Mæti ekki helmingur félagsmanna á fundinn, skal boða til nýs fundar innan þriggja vikna og er sá fundur ályktunarhæfur um þetta mál, hversu fáir sem mæta, sé löglega til hans boðað. Hrein eign við slit félagsins skal renna til almannaheillafélaga í Hrunamannahreppi sem hafa sambærileg meginmarkmið og Golfklúbburinn Flúðir.

17. grein

Þar sem ákvæði þessara samþykkta segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga nr. 110/2021 um félög til almannaheilla, svo og öðrum lagaákvæðum sem við geta átt.

Rulla till toppen