Veitt voru sérstök verðlaun fyrir 10. sætið, sem tengdist afmælistölunni 40 (4 keppendur x 10. sæti). Frá vinstri: Unnsteinn, framkv.stj. GF og verðlaunahafarnir þau Gunnar, Sigríður Dísa, Valdimar og Guðný Linda.
Nú í október héldu meðlimir í GF til Almerimar á Spáni. Ferðin var farin í tilefni af 40 ára afmæli klúbbsins sem var stofnaður þann 29. júlí 1985.
Á milli 80 og 90 félagar spiluðu golf við bestu aðstæður á þremur 9 holu völlum. Mikil gleði og samstaða var allan tímann.
Við spiluðum okkar fimmtudagsmót, 4ra manna Texas og var þátttaka mjög góð og keppni hörð.
Á laugardeginum héldum við 40 ára afmælismót þar sem leikið var í 4ra manna liðum. Besta skor í punktum talið á hverri holu taldi. Mikil og hörð keppni var allan daginn og óspart hlegið eftir hringinn þegar félagarnir voru að telja saman punktana og fara yfir höggin sem mistókust og einnig fallegu höggin sem gleðja.
Fyrir ferðina var hægt að kaupa afmælisboli merkta klúbbnum og voru þeir í fallega bleikum lit, ljósbláum og dökkbláum. Yfir eitt hundrað bolir voru seldir. Það var skemmtileg sjón að sjá svona samstilltan hóp arka út á vellina og margir karlanna voru að sjálfsögðu í bleikum bolum.
Búið er að loka golfvellinum okkar þetta golfsumarið, en félagsmenn geta leikið golf eftir vetrarreglum eins og áður.
Aðsókn á Selsvöll var mjög góð á liðnu golfsumri og völlurinn náði sér vel á strik eftir sem leið á sumarið. Breytingin sem gerð var á þremur holum vallarins, 15. – 16. og 17., lukkaðist einstaklega vel og gaman verður að spila þær heilt sumar í framhaldinu.
Aðalfundur GF verður haldinn í klúbbhúsinu okkar þann 21. nóvember. Venjuleg aðalfundarstörf og kosning í stjórn, eins og áður hefur verið auglýst. Vil ég hvetja alla sem hafa áhuga á að starfa með okkur að gefa sig fram við kjörnefnd eða framkvæmdastjóra.
Fyrirhugað er jólahlaðborð og skemmtun í klúbbhúsi okkar fyrstu helgina í desember, sjá auglýsingu á vefnum okkar.
Bestu kveðjur
Ottó – formaður GF

