Þann 9. janúar 2025 auglýsti skipulagsfulltrúi UTU (Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita) breytingu á deiliskipulagi fyrir uppbyggingu á aðstöðu GF í nýjum véla- og verkfærageymslum, sem og breytingu á áður auglýstu skipulagi gistiþjónustu.
Bókunin er eftirfarandi:
”Sveitarstjórn Hrunamannahrepps samþykkir á fundi sínum 5. desember að auglýsa tillögu aðalskipulagsbreytingar sem tekur til svæðis VÞ5, Efra-Sels golfvallar. Í breytingunni felst heimild fyrir fjölgun herbergja hótels/gistiheimilis á reitnum. Innan gildandi aðalskipulags Hrunamannahrepps er gert ráð fyrir allt að 80 gistirúmum á allt að 5 ha svæði. Eftir breytingu verður gert ráð fyrir allt að 170 gistirúmum á allt að 5 ha svæði”.
Helstu breytingarnar eru breytt lega vegarins í nágrenni golfskálans, með fækkun gatnamóta, gerð undirganga fyrir kylfinga, golfbíla og vélar, upphækkaðar gangbrautir, sérstök aðkoma vegna aðfanga og fleira.
Einnig verða bílastæði við hótelbygginguna, afmörkuð vegna umferðar í gegnum svæðið og sérstök bílastæði gerð fyrir stærri bíla og rútur.
Eins og staðan er í dag er umferð gangandi vegfarenda og kylfinga, bifreiða, golfbíla, flutningabíla, véla og tækja; nánast öll á sama svæðinu. Auk þess verða breyttar reiðleiðir merktar sérstaklega um svæðið.
Áhugasamir eru hvattir til að skoða skipulagið.
Kynningarfundur verður haldinn um skipulagið þann 7. febrúar n.k. í golfskálanum við Selsvöll og hefst kl. 18.30.